Landsbankinn

atlas

Hreysti

Leiksport

Hagabakarí

World Class

Gáski

Nings

jako

Um Frjálsíþróttadeild ÍR

Íþróttafélag Reykjavíkur hóf fyrst félaga iðkun frjálsíþrótta á Íslandi á Landakotstúninu sumarið 1907 en saga félagsins í rúmlega 100 ár er einkar viðburðarík og var hún skráð ítarlega í bók sem gefin var út í tilefni af 100 ára afmæli félagsins.

ÍR-ingurinn Jón Halldórsson keppti fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í frjálsíþróttum en hann keppti í 100 m hlaupi á leikunum í Stokkhólmi árið 1912. Fyrsti afreksmaður ÍR á alþjóðavísu var þó Jón J. Kaldal, einnig ljósmyndari, sem sló mörg met í lengri hlaupum, met sem síðan stóðu um áraraðir. Síðan árið 1982 hefur Kaldalshlaupið, 3000m hlaup karla á Vormóti ÍR, verið hlaupið til að heiðra minningu hans en fjölskylda Jóns stóð fyrir upphafi þess viðburðar og keypti veglegan farandgrip fyrir fyrsta sætið en viðurkenningarskjöl eru veitt öllum þeim sem keppa í hlaupinu á hverju ári.

Vilhjálmur EinarssonFjölmargir ÍR-ingar hafa keppt á Ólympíuleikunum en lengst allra náðu þau Vilhjálmur Einarsson sem hlaut silfurverðlaun í þrístökki á leikunum í Melburne í Ástralíu árið 1956 og Vala Flosadóttir sem hlaut bronsverðlaun í stangarstökki á leikunum í Sidney árið 2000. Þau eru einu verðlaunahafar Íslands í frjálsíþróttum á Ólympíuleikunum. Rétt er að taka fram að Íslandsmet Vilhjálms stendur enn en hann stökk lengst 16,70 m í ágúst árið 1960.

ÍR-ingar byggðu upp mjög sterkt keppnislið á áttunda áratugnum undir stjórn hins farsæla þjálfara Guðmundar Þórarinssonar og sigruðu 16 ár í röð í Bikarkeppni FRÍ. Frá árinu1989 til 2009 tókst ÍR-ingum ekki að sigra í Bikarkeppninni en því var snúið við árið 2009 þegar langþráður sigur vannst og ÍR-ingar verið á óslitinni sigurbraut síðan.

Bikarlið ÍR 2011Bikarkeppni FRÍ innanhúss hefur verið haldin frá því árið 2007 og hefur keppnislið ÍR borið sigur úr bítum 5 sinnum. Síðan árið 2008 hefur meistaraflokkur orðið Íslandsmeistari félagsliða innanhúss og samfellt síðan 2012 utanhúss en þar á undan árin 2007, 2009 og 2010. Unglingalið ÍR 15-22 ára hefur orðið Íslandsmeistari félagsliða 11 ár í röð bæði utanhúss og innanhúss. 11- 14 ára aldursflokkurinn sigraði stigakeppni MÍ innanhúss samfellt árin 2007-2011 en hefur síðan orðið í 2. sæti. Utanhúss hefur þessi aldursflokkur sigrað 4 sinnum og orðið 6 sinnum í 2. sæti síðan árið 2000. Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri hefur verið haldin til fjölda ára og hefur ÍR sigrað 5 sinnum síðan árið 2004. Öldungalið ‚IR hefur einnig verið atkvæðamikið á meistaramótum sínum og unnið stigakeppnina innanhuss 5 sinnum síðastliðin 8 ár og utanhúss 2008–2013 en tapaði með 1 stigi gegn Breiðabliki árið 2014.

Unglingahópurinn í Gautaborg 2014Á nýrri öld urðu breytingar á starfsemi deildarinnar og var unnið að sérstakri eflingu barna- og unglingastarfs á árunum 2000-2004. Á árunum 2005-2008 var starfsemi meistaraflokks endurskoðuð og efld, samhliða eflingu á starfi skokkhóps og starfi öldunga. Frá árinu 2009 hefur verið lögð sérstök áhersla á eflingu afreksstarfsins um leið með öflugt barna og unglingastarfs sem undirstöðu. það ár var hrundið af stað afreksstefnu deildarinnar og sett upp fagteymi til stuðnings afreksmönnunum.

Á nýrri öld hefur starfsemi deildarinnar vaxið jafnt og þétt. Yfir árið æfa um 700 iðkendur í 16 æfingaflokkum með deildinni; 250-350 á aldrinum 14 ára og yngri, 130–150 eldri en 15 ára og 100–150 manns eru skráðir sem iðkendur hjá ÍR skokk.

ÍR-ingar hafa verið fjölmennastir allra í landsliðum bæði fullorðinna og ungmenna á undanförnum árum og átt fjölmarga þjálfara sem fylgt hafa landsliðum Íslands til keppni. Flestir íþróttamannanna eru upp aldir hjá deildinni frá barnaflokkum og upp í meistaraflokk.

ÍR skokk er einn öflugasti hlaupahópur landsins. Hópurinn hélt upp á 20 ára afmæli sitt vorið 2014 með heljarinnar samhlaupi um 300 hlaupara úr öðrum hópum sem endaði með hressingu og baði í Breiðholtslaug. Með ÍR skokk æfa bæði byrjendur og lengra komnir, og margir af bestu lang- og götuhlaupurum landsins í eldri flokkum æfa með hópnum. ÍR skokk er svo reyndar miklu meira en bara skokkhópur en mikið og fjölbreytt félagslíf er í gangi næstum allt árið.

Með tilkomu glæsilegrar innanhússaðstöðu í Laugardalshöll árið 2005 urðu þáttaskil fyrir íslenskt frjálsíþróttafólk og í kjölfarið féll fjöldinn allur af Íslands- og aldursflokkametum. Höllin er gríðarlega vel nýtt fyrir æfingar allra aldurshópa frá 6 ára og upp í öldungaflokka auk þess sem allar helgar frá byrjun janúar og út febrúar eru undirlagðar í ýmiss konar mótahaldi. Áætlað er að árið 2016 verðir komin frábær aðstaða til iðkunar frjálsíþrótta utanhúss á svæði ÍR við Skógarseli sem mun án efa efla frjálsíþróttir í ÍR hverfinu og Reykjavík allri.

Frjálsíþróttadeild ÍR heldur úti sjö megin viðburðum árlega. Stórmót ÍR frá 1997, Silfurleikar ÍR frá1996, Gamlárshlaup ÍR frá 1975, Víðavangshlaup ÍR frá 1916, Vormót ÍR frá 1943, Grunnskólamót/Breiðholtsmót frá 1997 og Bronsleikar ÍR frá 2010. Þátttaka í viðburðum deildarinnar hefur vaxið stöðugt síðasta áratug en flestir eru þátttakendurnir í Gamlárshlaupiniu eða um 1000 og um 800 á Stórmótinu, Víðavangshlaup ÍR er elsti viðburður deildarinnar en hlaupið verðir haldið í hundraðaðsta sinn á Sumardaginn fyrsta 2015.

Þráinn HafsteinssonUm 35 þjálfarar vinna frábært starf undir styrkri stjórn Þráins Hafsteinssonar yfirþjálfara og má segja að bikarsigurinn 2009 hafi verið eðlilegt framhald mikillar og óeigingjarnrar uppbyggingarvinnu stjórnenda, þjálfara, keppenda og aðstandenda árin á undan. Um 300 sjálfboðaliðar koma að starfi deildarinnar á hverju ári og er þar gríðarlegur mannauður samankominn. Þjálfarar deildarinnar eru flestir bæði vel menntaðir og margreindir sem starfað hafa í áraraðir hjá deildinni en vaxandi hópur ungra þjálfara kemur úr hópi íþróttamanna sem eru uppaldir ÍR-ingar sem síðan hafa kosið að verða þjálfarar hjá deildinni.