Heillaóskaskrá

ÍTR

Essei

Ottó B Arnar

Þrír frakkar hjá Úlfari

 

Brúskur hárstofa ehf

Danica sjávarafurðir hf

Ís og Ævintýri ehf

Ísfrost

Íþróttasamband Fatlaðra 

Landsamband Lögrelgumanna

Löndun ehf

Nonni Litli ehf

Orka ehf

Sálarransóknarfélag Reykjavíkur

SB Pípulagnir ehf

Skipakostur slf

Slólpi Gámar ehf

Stjörnuegg hf

Tannlæknastofa Theodórs ehf

Teiknistofan Tröð

Tösku og Hanskabúðin

Útfarastofa Íslands

Veislulist ehf

Vídd ehf

Wurt á Íslandi ehf

1976

Allt fór til ÍR í 61. hlaupinu

„Það má búast við spennandi keppni, þar sem flestir okkar bestu hlauparar taka þátt i hlaupinu,“ sagði Guðmundur Þórarinsson þjálfari ÍR spurður um horfur og þátttöku í 61. Víðavangshlaup ÍR. Til keppni voru skráðir 93 keppendur frá 10 félögum. Þar af 31 stúlka og er það mesta þátttaka kvenna fram að þessu, en flestar höfðu þær verið 16 áður. Þrjú félög sendu 10 manna sveitir til leiks, HSK, UBK og ÍR og meðal sérkenna hlaupsins var, að í því tóku þátt tvennir feðgar úr ÍR, Ásbjörn Sigurðsson og Guðmundur sonur hans, og Andrés Sigurjónsson og Sigurjón sonur hans.

Ágúst Ásgeirsson ÍR hleypur fyrstur í mark í Víðavangshlaupi ÍR 1976.Ekki reyndust nema 65 af tilkynntum keppendum mættir þegar hlaupið hófst í Hljómskálagarðinum. Hefðu allir þessar hlauparar lokið keppni hefði það verið meira en nokkru sinni fyrr í Víðavangshlaupi ÍR, en fimm hættu hlaupinu, þannig að 60 komu í mark, fjórum færri en best hefur gerst áður. Meðal þeirra sem ekki luku hlaupinu var sigurvegarinn á Víðavangshlaupi Íslands, Sigurður P. Sigmundsson FH, sem talinn var líklegur til afreka í ÍR-hlaupinu.

Allir bestu hlauparar landsins voru meðal þátttakenda nema sigurvegarinn í hlaupinu frá í fyrra, Sigfús Jónsson ÍR, sem sá sér ekki fært að koma til hlaupsins frá Englandi að þessu sinni. Ágúst Ásgeirsson, sem einnig er við nám í Englandi, var hins vegar kominn til keppninnar og var óneitanlega sigurstranglegur.

Eins og vænta mátti varð Ágúst öruggur sigurvegari í ÍR-hlaupinu, hljóp röska fjóra kílómetra á 12:21,8 mín. Tók hann þegar forystu er skotið reið af og hélt henni allt til loka. Þótti greinilegt að hann væri í hörkuæfingu og ef að líkum léti næði hann markmiði sínu að komast á Ólympíuleikana í Montreal þá um sumarið.

Það vakti athygli að þessu sinni hversu mikill munur var á hlaupurunum þegar í markið kom. Þannig var Jón Diðriksson nær 13 sekúndum á eftir Ágústi í öðru sæti á 12:34,4 mín. og Ágúst Þorsteinsson, félagi Jóns úr UMSB, sem varð þriðji, var rösklega hálfri mínútu á eftir Jóni á 13:10,0 mín. Var ekki um keppni um sæti að ræða fyrr en síðar í hlaupinu, og þá milli ungu mannanna, sem sannarlega gáfu ekkert eftir, enda þar líka verið að berjast um sigur í sveitakeppni.

Víðavangshlaupi ÍR lauk í Austurstræti við Landsbankann, þar sem mikill mannfjöldi hafði safnast saman til þess að fylgjast með lyktum þess.. Varð áhorfendafjöldinn til þess að sumir keppendurnir luku ekki hlaupinu. Nokkrir ungir drengir sem voru aftarlega í hópnum misstu kjarkinn er þeir sáu áhorfendafjöldann og létu sig hverfa, fremur en að ljúka síðustu metrum hlaupsins.

Ragnhildur Pálsdóttir úr KR varð fyrst þeirra kvenna sem kepptu í hlaupinu, hljóp á 16:34,0 mín. Tvær ungar og mjög efnilegar stúlkur, Inga Lena Bjarnadóttir úr ÍR og Thelma Björnsdóttir, UBK, voru ekki langt á eftir henni.

Margir hlauparar vöktu sérstaka athygli í þessu hlaupi, svo sem Guðmundur Geirdal úr Kópavogi sem hljóp geysilega vel og kom áttundi í mark. Þar þótti mikið efni á ferðinni, en Guðmundur var 16 ára. Þá vakti ekki síður athygli frammistaða yngsta keppandans, Alberts Imslands úr Leikni. Hann er aðeins 10 ára, en varð í 17. sæti. „Mikið má vera ef ekki á eftir að heyrast verulega frá þeim pilti eftir svo sem áratug,“ sagði Morgunblaðið. Hvorugur þeirra Alberts og Guðmundar átti þó eftir að láta að sér kveða á hlaupabrautinni síðar.

Sumardagurinn fyrsti 1976 var sannkallaður ÍR-dagur er stigin í sveitakeppninni voru gerð upp. Hlutu ÍR-ingar alla þá bikara sem keppt var um í Víðavangshlaupinu. Í 3ja manna sveitarkeppni vann ÍR Candy-bikarinn, hlaut A-sveit ÍR 6 stig, B-sveit ÍR 19 stig og A-sveit UBK 21 stig. Í fimm manna sveitakeppninni, þar sem keppt var um FIAT-bikarinn, hlaut A-sveit ÍR 17 stig, A-sveit UBK 54 stíg og B-sveit ÍR 56 stig. Í 10 manna sveitakeppninni hlaut A-sveit ÍR Morgunblaðsbikarinn sem nú var keppt um fyrsta sinni, hlaut 70 stig. Sveit UBK hlaut 159 stig og B-sveit ÍR 237 stig. Var þetta í fyrsta skipti í sögu hlaupsins, sem tvær 10 manna sveitir eins félags skila sér í mark.

Í sveit 3ja kvenna var einnig keppt um nýjan Morgunblaðsbikar og hlaut ÍR-sveitin þar lægstu hugsanlega stigatölu, 6 stig. Veitt voru verðlaun fyrir elstu fimm manna sveitina, Kasko-bikarinn, sem Vátryggingastofa Sigfúsar Sighvatssonar gaf. Hlaut ÍR hann þar sem samanlagður aldur fimm elstu keppenda félagsins var 132 ár. Elsti keppandinn í hlaupinu var hins vegar Jón Guðlaugsson, HSK, sem hljóp mjög vel að þessu sinni og varð í 22. sæti. Jón var nýorðinn fimmtugur, fæddur 1926.

Úrslitin 1976